John Radcliffe á nú orðið rétt um 1,4% af flatarmáli Íslands og sýnist sitt hverjum um áhuga hans á Norðausturlandi. Undanfarin ár hefur hann eignast, að hluta til eða að öllu leyti, 41 jörð, samkvæmt umföllun Kveiks1. Með kaupum sínum sver hann sig í ætt við aðra auðkýfinga, sem hafa sópað til sín risavöxnum landareignum út um allan heim. Ef hann tæki upp á að girða lendur sínar yrði hvorki komist til Þórshafnar né Bakkafjarðar nema sjóleiðina.
Til þess hefur ekki komið og enn hefur ekkert borið á því að ferðalangar hafi lent í meiri vandræðum en áður með að komast leiðar sinnar eða ferðast um þennan sjötugpart af landinu sem Radcliffe á. En þannig er það ekki alls staðar. Í vesturríkjum Bandaríkjanna, meðal annars í Idaho, hafa eigendur að risaspildum lokað vegum sem þar hafa legið „svo lengi sem elstu menn muna“. Hlið hafa sprottið upp líkt og gerðist við Geysi um árið. Í þeim tilvikum þar sem fólk hefur ekki fellt sig við slíkar takmarkanir og reynt að komast ferða sinna hafa eigendurnir í sumum tilfellum stillt upp vopnuðum vörðum2 til að koma í veg fyrir átroðning (e. trespassing).
Lagalegur réttur þeirra sem hafa lokað slíkum vegum er oft óviss, en það er ekki fyrir hvern sem er að taka slaginn og leita réttar síns fyrir dómstólum. Jafnvel þau bæjarfélög sem hafa sótt mál tengd eignarrétti á slíkum spildum hafa komist að því að þeirra fjárhagslega bolmagn er mjög takmarkað í samanburði við bolmagn landeigendanna.
Að öllu þessu sögðu fylgja ákveðnir kostir þessu erlenda eignarhaldi Radcliffe og félaga í hans eigu. Ýmsir hafa notið góðs af viðskiptunum við hann, enda hefur hann ekki eignast jarðirnar með gripdeildum, heldur með kaupum á frjálsum markaði. Og hann hefur talað um að vernda náttúruna og lífríkið á svæðinu (sem er reyndar mjög í takt við það sem sumir erlendir auðkýfingar hafa sagt um sín jarðakaup örfáum árum en landið hefur verið selt undir iðnað eða skógarhögg). Og kannski skapar þetta tækifæri fyrir hann að byggja upp blómlega ferðaþjónustu á svæðinu.
En ofangreindir kostir hafa í sjálfu sér ekki að gera með það að eignarhaldið sé erlent. Kosturinn við það er annars eðlis. Málið er að ýmsir, sem ekki endilega eru tortryggnir í garð heimaalinna íslenskra auðkýfinga, fyllast grunsemdum þegar útlendingar fara að ásælast íslenskar eigur. Í kjölfar erlendra uppkaupa hefur því verið rætt af mun meiri alvöru en áður hvaða réttindi í raun fylgi jarðeignum, og hvaða réttindi eigi að fylgja jarðeignum. Samkvæmt íslenskum lögum og hefð hefur alltaf verið heimilt að fara um óræktuð eignarlönd án sérstaks leyfis, en undan þeim rétti hefur verið grafið á síðustu árum. Kannski verður minni lyst á því að halda áfram á þeirri vegferð nú þegar raðir landeigenda eru orðnar fjölbreyttari en áður.