COVID-19 faraldrinum á liðnu vori þurfti að umbreyta námskeiðum í einhvers konar tilbrigði við vendikennslu (fyrirlestrar og innlagnir fara fram á netinu en kennslu-stundir eru notaðar til að vinna verkefni og dýpka efnið). Þetta gerðum við með litlum sem engum fyrirvara – nokkuð sem ég hef stundum kallað „kúvendikennslu“.
Ég kenndi þá námskeiðið „Nýsköpun og viðskiptaþróun í framkvæmd (II)“ (IÐN216F) sem byggir mikið á samvinnu nemendahópa um vinnu nýsköpunarverkefnis. Það var því ekki aðeins fyrirkomulagi kennslu sem þurfti að breyta, heldur þurftu nemendur líka að finna nýja leið til að vinna saman að hópverkefnum sínum.
Breakout rooms! („The Good“)
Zoom býður upp á „breakout rooms“, sem gæti útlagst sem hópvinnuherbergi á íslensku. Þau gera kennara kleift að skipta nemendum í minni hópa – með handvirkri eða handahófskenndri röðun. Að mínu mati er enginn eiginleiki mikilvægari við að halda uppi gagnvirkri kennslu í Zoom en „breakout rooms“. Nemendurnir í hópvinnuherbergi geta unnið saman án truflunar frá hinum nemendunum, kennari getur sent skilaboð til nemendanna eða litið inn til þeirra, og nemendur geta óskað eftir aðstoð.
Í dæmisögukennslu (e. case study), þeirri kennsluaðferð sem notuð er í námskeiðinu, er mikilvægt að nemendur taki afstöðu og rökstyðji hana, en af reynslu vissi ég að nemendur voru meira hikandi við að taka afgerandi afstöðu á Zoom en í eigin persónu. Lausnin fólst í að láta nemendur greiða atkvæði um sína afstöðu með kosningakerfinu og skipta þeim svo í hópvinnuherbergi eftir því hvernig þau greiddu atkvæði. Í hópvinnuherbergjunum fóru þau yfir ástæðurnar fyrir sínu vali og tilnefndu fulltrúa fyrir hópinn. Síðar gat fulltrúinn varið afstöðu hópsins fullum hálsi án þess að óttast að hann eða hún væri að trana sér fram, og úr því spunnust mjög fjörugar og kraftmiklar umræður sem aldrei hefðu orðið ef nemendur hefðu þurft að taka upp hjá sjálfum sér að halda fram sinni afstöðu.
Hópvinnuherbergin gjörbreyttu líka frímínútunum, sem eru auðvitað mikilvægur þáttur nemendaupplifunarinnar. Það var hálfpartinn fyrir slysni að ég setti nemendur í fyrsta skipti í hópvinnuherbergi í frímínútum (því eftir frímínúturnar var hópavinna á dagskrá). En þegar ég „leit inn“ í hópvinnuherbergin voru nemendur þar í hrókasamræðum, í stað þess að bíða kurteis og þegjandi eftir að tíminn byrjaði. Eftir þetta setti ég nemendurna alltaf í hópvinnuherbergi í frímínútum. Yfirleitt raðaði ég þeim handahófskennt, svo nemendur spjölluðu jafnvel við breiðari hóp nemenda en í staðnámi.
75% reglan („The Bad“)
Sama hvað ég reyndi, þá var magn efnis sem ég komst yfir í tímanum alltaf töluvert minna en ég hafði komist yfir árið áður þegar ég kenndi sama efni í staðnámi. Þetta var nokkuð óháð því nákvæmlega hverslags efni var verið að fara yfir og hvort það krafðist mikilla eða lítilla umræðna hjá nemendum. Þetta er þó sambærilegt við reynslu erlendis og er talað um 75% regluna – að hægt sé að komast yfir 75% af því efni sem maður er vanur að fara yfir í staðnámi.
Þessu má bregðast við með því að setja viðbótarlesefni á námskeiðsvef eða taka upp myndbönd. Það krefst viðbótarvinnu af hálfu nemendanna umfram það sem væri ef þeir væru í staðnámi, en við því er lítið að gera ef ekki á að draga úr kröfum í námskeiðinu. Hér er lykilatriðið að hafa æðruleysi til að sætta sig við það sem maður getur ekki breytt.
Vangaveltur í lokin („The Ugly“)
Til að kennsla í Zoom gangi vel er enn mikilvægara en í staðnámi að nemendur séu samábyrgir um að gera kennslustundina gagn-lega og skemmtilega. Nemendur þurfa að vera þolinmóðir og tilbúnir að hjálpa til við skipulagninguna. Þeir sem þekkja til Zoom kunna til dæmis að hafa velt því fyrir sér við lesturinn hér að framan, hvaða hnapp eigi að smella á til að skipta nemendum í hópvinnuherbergi eftir svörum úr kosningakerfinu. Svarið er ósköp einfalt: Það er enginn slíkur hnappur.
Þegar ég skipti nemendum eftir könnunum gerði ég það einfaldlega þannig að eftir að þau kusu rafrænt bað ég hvern nemanda að rétta upp hönd upp á gamla mátann til að gefa til kynna hvað þau hefðu kosið, og halda henni uppi á meðan ég raðaði nemendum í hópvinnuherbergið. Þetta gerðu þau þolinmóð, þrátt fyrir að þetta ferli allt saman hafi örugglega tekið hátt í tvær mínútur. Ef nemendur finna ekki til samábyrgðar um gæði kennslunnar er erfitt að biðja þau um slíkt, og þetta var langt í frá eina tilfellið þar sem ég þurfti að lýsa því yfir að nú ætlaði ég að fara að garfa í tæknimálum og þau yrðu að bíða þolinmóð eftir því.
Við nutum góðs af því að við höfðum náð að hittast í eigin persónu áður en allt skall í lás vegna faraldursins. Minn lærdómur af þessari reynslu var að yfir það heila sé ekkert sem taki vel skipulögðu staðnámi fram – en með góðum vilja kennara og nemenda má engu að síður ná mjög góðum árangri í kennslu í gegnum Zoom.
Greinin birtist í sérriti Tímariti Kennslumiðstöðvar Háskóla Íslands – Kennsluþróun á krossgötum. Vol. 8 No. 1 (2020). Tímaritið í heild sinni er aðgengilegt hér.